28.10.2008 | 18:38
Hvað er í gangi í þessu þjóðfélagi?
Allan daginn út og inn skellur á eyrum okkar þetta krepputal, sífelldar hártoganir fram og til baka, einn segir eitt og annar hitt. Og hverjum á svo að trúa eða treysta? Ég er að verða dálítið þreytt á þessu öllu, að meðtaka í sífellu einhvern nýjan sannleik, bjartsýni hjá sumum en strax á eftir svartasta svartsýni hjá öðrum. Ég held að flestir séu að fyllast vantrausti á það fólk sem kosið var og treyst til að stjórna þessu landi, sérstaklega þegar sverfur að og sekir jafnt sem saklausir eru dregnir saman í dilk sakfelldir sem ein heild...og dæmdir til að snúa bökum saman, axla ábyrgðina, vera bara góðir og BORGA SKULDINA.
Ég geri mér fulla grein fyrir að atburðir síðustu vikna eru engum einum að kenna og engri einni þjóð heldur, en er ekki kominn tími til að við fáum að heyra hinn íslenska SANNLEIKA, þennan sem ég held að ekki sé enn kominn fram í dagsljósið, og í framhaldi af því fari menn að vinna vinnuna sína.
Mér finnst eins og fleirum að ekki séu allir jafn sekir og þar af leiðandi ekki réttlátt að við "ALMENNINGUR" (felur trúlega ekki í sér stjórnvöld og hina ríku íslendinga (útrásarólimpíuliðið o.fl.)) þurfum að snúa saman bökum, brosa og borga brúsann, jafnvel margar kynslóðir framtíðarinnar.
Stór hluti þjóðarinnar, almenningur, tók nefnilega ekki þátt í ruglinu heldur hefur unnið fyrir sínu, á lágum launum eða lifað á hinum lágu tryggingabótum, borgað sína skatta og skyldur og í raun aðeins verið áhorfendur að ruglinu. Við treystum þeim sem við kusum til að halda utan um og vernda eigur þjóðarinnar, en nú er það traust horfið.
Afleiðingarnar af þessu rugli eru skelfilegar og væru það þó ekki hefði orðið þessi heimskreppa. Stjórnvöld eru bara "heppin" að hún skall á líka því á bak við hana geta þeir falið hina raunverulegu íslensku óráðsíu.
Ég heimta kosningar.....en hverju breytir það ef ekki er hlustað á hinn almenna borgara...það skiptir greinilega engu hvort við treystum einstöku stjórnmálamönnum eða ekki, það er ekki hlustað á okkur þetta heimska undirmálsfólk í þessu samfélagi sem bara þegir og borgar, eða fer á hausinn og flýr land. Er ekki kominn tími til mótmæla og kröfugerða frá okkur...Stjórnina burt...nýtt fólk í tiltektirnar!!!!!!! Það er kominn tími til að heimta virðingu fyrir ALMENNINGI.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
vel skrifað!!! Þú ættir að leggja í vana þinn að blogga oftar móðir sæl!! :)
Guðný Lára, 29.10.2008 kl. 19:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.